4.7.2007 | 22:43
Höggin
Þau eru ófá höggin sem dynja á þessari litlu fjölskyldu og stundum finnst mér ég ekki sjá neinn enda á eilífum áföllum og vonbrigðum. Einhvern veginn rís ég alltaf upp aftur, jafnvel upp úr öskunni á stundum og næ að halda nokkurn veginn sjó. Ég verð hins vegar meyrari en um leið reiðari þegar vonbrigðin dynja á krökkunum, finnst þau hafa þolað meira en nóg. Stundum dugar ekki að segja við þau; "erfiðleikarnir herða mann", "tækifærin felast í vonbrigðum og áföllum", "það sem ekki drepu mann, herðir mann"! Hvernig á að sannfæra ungt fólk um slíkt, þrátt fyrir töff reynslu á síðustu árum? Í flestum tilfellum er það sakleysið uppmálað og skilur ekki mannvonskuna. Sumum er ætlaður erfiðari skóli en öðrum, hvernig sem á því stendur og margar kenningar uppi um ástæður.
Í raun get ég sagt að einmitt þegar börnin mín finna til og eiga erfitt, ekki síst ef það er af annarra völdum, bókstaflega rísa hárin á höfði mér. Þegar aðrir markvisst gera manni illt sem síðan bitnar á þeim kallar fram hefndarhug hjá mér, ég líð ekki að þau finni til vegna mannvonsku og valdagræðgi annarra. Ætli þessi lýsing eigi ekki við flesta foreldra og ég líkt og þeir, svæfi hefndarhuginn og forðast að fara niður á sama plan og umræddir. Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt en ég hugga mig við það að menn uppskera eins og þeir sá. Ég er ekki svo kærleiksrík og trúuð að ég geti alltaf fyrirgefið, a.m.k. ekki strax og viðurkenni það. Verst hvað klókir menn komast upp með það lengi að skaða aðra og fara illa með þá, áður en þeir heimta uppskeruna sína. Gníst, gr......... Þeim hefnist þó yfirleitt fyrir af lífinu sjálfu.
Best að ræða sem minnst um vinnudag 2 og 3 þessa vikuna. Þetta hefur hafst með herkjum með tilheyrandi faðmlögum við koddan og sófan þegar heim er komið. Afrekaði að reita arfa eftir faðmlögin í gærkvöldin, skreið eins og moldvarpa um allt og réðst á illgresið. Í verki sem og í hugsun. Góð leið til að hlaða batteríin sem ég get hiklaust mælt með. Bætti við mig aukavakt vegna manneklunnar, mun forðast það í framtíðinni. Líkar stórvel í sumarvinnunni og ekki lítið montin yfir því að hafa engu gleymt.
Verð að bíta í það súra að þurfa að fara of snemma af stað, það ætti að herða mig þegar upp er staðið. Vinnan er ákveðin endurhæfing í sjálfu sér en býsna sársaukafull og tekur sinn toll. Ce la vie! Ekkert flóknara en það.
Bíð spennt að sjá fundargerð byggðaráðs Dalabyggðar. Hver skyldi nú fá stöðu markaðstjórans? Mér sýndist reyndar aðeins einn umsækjandi vera hæfur ef litið er á menntun. Skyldi sá þáttur verða tekinn til greina?? Hvaða byggðaráðsmenn skyldu hafa setið fundinn og tekið ákvörðunina? Það verður spennandi að sjá. Eitthvað stendur í mönnum að birta fundargerðina Allt er leyfilegt í ástum og stríði stendur einhvers staðar
Kominn í ákveðinn gír í ýmsum málum, ekki seinna vænna. MBA gráðan dugir ekki að öllu leyti þegar kemur að kerfinu, svo mikið er víst. Er alltaf sannfærðari um nauðsyn þess að skikka eftirlifendur á námskeið við slíkar aðstæður. Í mörgum tilfellum virðast óhæfir starfsmenn raðast í hin ýmsu opinberu störf með tilheyrandi dramatíu og óþarfa áhyggjum. Þá er bara að taka á því.
Í öllu falli bætast litlu skrefin smátt og smátt við, allt skal þetta hafast. Er ekki markmiðið alltaf að verja sitt og sína? Markmiðum næ ég með litlu skrefunum. Eitt af höfuðmarkmiðum mínum eftir "endurfæðinguna" sem ég gef ekki eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Æ nú liggur illa á þér systir. Auðvitað er það versta þegar fólk lætur góðvild sína í garð okkar fullorðinna bitna á börnunum. En svo margir eru einfaldlega ekkibetur gefnir en það. Þau eru seig krakkarnir og vonandi láta þau ekki á sig fá höggin.
Kveðjur úr Víkinni....
Katrín, 5.7.2007 kl. 12:31
góðvild á náttúrulega að vera í gæsalöppum enda öfugmæli á ferð
Katrín, 5.7.2007 kl. 12:32
Jamm, rétt hjá þér. Það er ansi þungt, mér gengur illa að leiða hjá mér mannvonskuna, ekki síst þegar hún bitnar á krökkunum. Menn ættu að hafa vit á því að hlífa þeim, hvað hafa þau öðrum gert?
Ég er náttúrlega svo kyngimögnuð kona að mönnum stendur stuggur af mér
. Á ég að líta á það sem hrós eða.................
Dýfurnar standa aldrei lengi yfir og rétt hjá þér, það er seigt í þeim enda af Stekkjarflatarkyninu
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 5.7.2007 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.