Og þá hefst ballið.......

Þá hefjast herlegheitin á morgun niður á LSH. Fyrsta lyfjameðferð. Framundan síðar í vikunni undirbúningur fyrir geisla þannig að mér sýnist þeir byrja í næstu viku eins og doktorinn lagði upp með í síðustu viku. Hitti minn lækni ekki á morgun þar sem hann verður í fríi þannig að ég á ekki von á því að fá upgefið endanlegt prógram fyrr en í næstu viku. Veit því ekki enn hversu stíft þetta verður.

Ætla nú ekki að þykjast vera einhver ofurhetja og segjast ekki kvíða fyrir morgundeginum. Auðvitað kvíði ég fyrir honum, man allt of vel aukaverkanirnar á síðustu lyfjagjöf. Ég veit þó að ég á ekki von á þeim sömu nú, mun minni aukaverkanir af þeim lyfjum sem mér eru ætluð núna. Ég er hins vegar afar sjaldan heppin þannig að mér er það eðlislægt að búa mig undir það versta.  Bara tilhugsunin ein að mæta niður á göngudeild dugar til að vekja upp smá hnút. Þar verður hvert rúm og hver stóll skipaður af fólki í meðferð, á mismunandi aldri og misveikt en allir með vökva og dripp.  Það tekur alltaf svolítinn tíma fyrir fólk að kynnast innnbyrðis, flestir fljótir til  og  ófeimnir við að skiptast á þessum hefðbundnu spurningum; ,,hvernig hefur þú það",  ,,ertu með hárið ennþá",  ,,hvernig var vikan" o.s.frv.

Þrátt fyrir kvíðan, fylgir því ákveðinn léttir að byrja meðferðina. Er dauðfegin að þurfa ekki að bíða lengur en þessa viku sem liðin er síðan ég fékk minn stóradóm. Hef verið að byggja mig upp, m.a. fengið stera sem hafa óneitanlega valdið mér vonbrigðum. Hef ekki verið nógu hress og tuskuæðið látið standa á sér.  Verkirnir hafa aukist töluvert eins og tíðkast í svona veðurfari og ég almennt lélegri, sérstaklega síðustu 2-3 dagana.  Finn þó að það er algjört ,,must" fyrir mig að komast út einu sinni á dag, þó ekki nema út í búð. Það gerir kraftaverk. Fékk góða aðstoð við það í dag hjá Siggu sys sem gerði kraftaverk. Takk fyrir mig SigrúnHeart

Það er ekki laust við að maður sé hálf svartsýnn á tilveruna þessa dagana vegna stöðunnar í efnahagsmálum. Hrikalegt ástand, vægast sagt. Ég fæ ekki skilið hvernig  fjárfestar, bankmenn og ríkisstjórnarflokkarnir gátu leynt ástandinu svo lengi sem raun bar vitni. Ýmsir áttuðu sig á því að margt væri  bogið  með útrás bankanna og annarra fjárfestingafélaga, enda verið þvílík að heimurinn hefur staðið á öndinni. Útrásin hefur staðið yfir í nokkur ár og er ekki nýtilkomin. Það sama á við vandann.  Sú þróun sem við landsmenn höfum horft upp á síðustu dagana gerðist ekki á nokkrum dögum og á sér mun lengri aðdraganda. Stjórnarandstðan hefur reynt að benda á ýmiss teikn á lofti en ríkisstjórn slegið jafnharðan á puttana á þeim og gert lítið úr áhyggjum þeirra. Mig skal ekki undra að henni var haldið utan við allar umræður og gjörninga nú um helgina.  Hvernig mun þjóðin koma sér út úr þessum vanda?

Jóhanna Sigurðardóttir, Björgvin, Össur og Geira hafa verið ötul síðustu dagana að sannfæra þjóðina um að heimili landsins verði varin og efast ég ekki um heillyndi þeirra í þeim efnum. Undir þetta hafa einhverjir þingmenn tekið sem flestir þegja þó þunnu hljóði.    En er það nóg til að friða eigin samvisku og nægir það til að geta horft framan í þjóðina án þess að vera með svört sólgleruagu og í felulitum?  Mér hryllir við þessu og skil ekki hvernig ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnar geta yfir höfuð látið sjá sig, hvað þá að þeim sé svefnrótt. 

Íbúðalánssjóði verður gert kleift að kaupa upp húsnæðislán þau sem bankarnir högnuðust sem mest ár þannig að hægt verður að því leytinu að koma til móts við húseigendur. En hvað með öll önnur lán og hvað með sparnað einstaklingana?  Mesta púðrið verður ugglaust sett i fyrritækin og  rekstur sem er skiljanlegt þar sem  tryggja þarf atvinulíf í landinu en hversu mörg heimili munu leysast upp á næstu misserum? Ég veit að ég hef verið uggandi um minn hag fyrir vegna veikindanna , hvað þá núna í þeirri stöðu sem upp er komin.

Hvað gera landsmenn núna?  Skyldi ríkisstjórnin sem ber, a.m.k að hluta til ábyrgð á ástandinu, halda velli? Getum við ger eitthvað?  Ráðamenn segjast ætla að sitja og halda áfram ótrauðir þrátt fyrir allt. Er hægt að stöðva það?  Mér er það til efs, því miður og spái því að ríkisstjórnin muni standa þennan storm af sér og óbreytt stjórn fylla stólana hjá Seðlabanka Íslands. Geir Haarde bliknaði ekki aðfaranótt mánudags þegar hann lýsti því yfir að ekki væri þörf á aðgerðarpakka. Hann bliknaði heldur ekki þegar hann át það ofan í sig daginn eftir né í dag þegar hann skýrði þjóðinni frá staðreyndum mála eins og þær blasa við núna. Hann mun því ætla sér að stýra þjóðarskútunni áfram hikstalaust.

Það heyrist lítið í stjórnarandstöðunni sem mér þykir athyglivert. Vissulega verða allir kjörnir fulltrúar að vinna sameiginlega að því að bjarga því sem bjargað verður en það kemur mér samt á óvart hversu hljótt er í þeim herbúðum.  Ég er þess fullviss að hún býr yfir veigamiklum upplýsingum sem hugsanlega hafa ekki enn litið dagsins ljós. Hlutverk stjórnarandstöðunnar er að m.a að veita ríkisstjórninni aðhald, ég ætla rétt að vona að hún standi sig vel í því hlutverki. Oft er þörf en nú er nauðsyn.

Hvað sem mínum vangaveltum líður, þá hefst ballið á morgun. Er klár í slaginn og kem örugglega til að hugsa um eitthvað annað er efnahagsmál og pólitík svona framan af degi - eða hvað..Whistling


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl; Guðrún mín !

Megi þér vel farnast; í þessum raunum öllum, og ná góðri heilsu, á ný.

Með beztu kveðjum, sem ætíð /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 01:01

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Sendi þér allan þann styrk og góðar óskir sem ég get til að þú komist sem best í gegnum þennan brimskafl. ( tískuorðið í dag ) Kær kveðja

Hólmdís Hjartardóttir, 8.10.2008 kl. 01:03

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

p.s. fékkst þú ekki mailið?

Sigrún Jónsdóttir, 8.10.2008 kl. 01:04

4 Smámynd: Sigrún Óskars

Kæra Guðrún, ég sendi þér góðar hugsanir, kærleik og bestu óskur um að allt gangi vel.

Sigrún Óskars, 8.10.2008 kl. 22:40

5 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég verð með þér í huganum.

Anna Einarsdóttir, 8.10.2008 kl. 23:06

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Veistu Guðrún Jóna..... það er ótrúlega oft sem að ég er að kommenta hjá þér og þá ert þú að kommenta hjá mér á nákvæmlega sama tíma.    Það er líklega einhver hugsana-þráður á milli okkar.

Anna Einarsdóttir, 8.10.2008 kl. 23:09

7 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Ég er sammála þér Anna, tók ekki síst eftir þessu á síðu Giilíar á sínum tíma. Það er eitthver tenging þarna, á því er enginn vafi. Ég er mjög sátt við það

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 9.10.2008 kl. 03:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband