Spennufall

Ekki laust við smá spennufall eftir að Katan fór í gær. Við áttum frábæra daga saman hér og náðum að afreka eitt og annað sem var á óskalistanum en ekki síst bara að vera saman og dingla eins og maður segir. Sælunni lauk sem sé seinni partinn í gær, þegar daman flaug út til Búapest.
Þetta var annars aldeilis skemmtileg uppákoma þegar daman mætti hér á tröpunum undir morgni. Veit að Haffinn studdi hana og hvatti með dáðum að drífa sig. Ferðalag á milli landa er ekki beint fýsilegur kostur hjá námsmönnum erlenis, fargjödl og gjaldmiðlar upp úr öllu valdi. Krakkarnir finna all verulega fyrir þessu ástandi þarna úti, allt er mun dýrara og erfittt er með allar millifærslur. En við vorum heppin, nú var hægt að fá flugmiða á sanngjörnu verði. Þessi ferð var allaa vega hverrar krónu virði.   Það sem mér þótti svolítið kómiskt að heyra var að vélin sem flaug til Búdapest í gærkvöldi var full af Ungverjum þannig að þeir eru greinilega farnir að nema hér land. Það ku vera mjög hagstætt að skreppa hingað í verslunarferðir þessa dagana. Hver hefði nokkurn tíma trúað því?Tounge

Þrátt fyrir þetta spennufall er ég svo sem ekkert búin að breiða upp yfir haus. Það er stutt eftir af önninni hjá krökkunum og til jóla og ég veit að tíminn verður fljótur að líða þangað til. Það er auðvelt að venjast góðu og kannski er það það sem gárar pínu hjá mér yfirborðið; það var svo ansi notalegt að láta stjana við sig og hafa félagsskapinn.

Ég finn að meðferðin er farin að taka aðeins í. Þjáist af ólýsanlegri síþreytu og úthaldsleysi. Sofna hér og þar og alls staðar. Enginn svefn virðist nógu langur.  Fótaferðtími nær ekki mörgum klukkustundum  og er að mestu bundinn við ferðir niður á LSH í geislana. Finn nokkuð fyrir rugguveiki og svima en á meðan ég er ekki með fötuna um hálsinn, ætla ég ekki að kvarta, enda engin ástæða til. Ég þoli meðferðina ágætlega fram til þessa. Verkjastatusinn er svipaður, engar stórvægilegar breytingar, heldur lengra á milli kasta en áður, ef eitthvað er. Það hlýtur að vita á gott. Ætli ég sé ekki að verða hálfnuð í geislunum af þeim 22 skiptum sem lagt var með í upphafi, minnir það en ekki viss. Hef steingeymt að skrá þetta hjá mér. 

Ég líkt og aðrir  landsmenn, er gjörsamlega miður mín yfir því ástandi sem hér ríkir í þjóðfélaginu og kvíðir fyrir því að lesa dagblöðin á morgnana. Alltaf nýjar fréttir af einhvers konar klúðri og/eða laumuspili. Útrásarvíkingar, seðlabankastjórar og ráðherrar benda hvor á annan, hver og einn heldur fram sakleysi sínu. Erfitt að treysta nokkrum þeirra, flestir orðið uppvísir um að a.m.k. hagræða hlutum eða kjósa að túlka þá eftir eigin höfði. Ég get vel skilið þá miklu reiði sem kraumar í landsmönnum en óttast þá þróun sem virðist ætla verða ofan á i þeim efnum. Það hefur aldrei þótt góðri lukku að stýra að fara fram með offorsi og látum, galdrabrennur og persónulegar offsóknir skila ekki heldur neinu nema niðurbroti og skemmdum, jafnvel á þeim sem síst skyldi. Það er ekki þar með sagt að við eigum að láta þetta hrikalega mál yfir okkur gangandi þegjandi og hljóðalaust. 

Staðan í efnahagsmálunum þjóðarinnar kemur við öll heimili landsins. Mitt er ekkert undanskilið því. Þetta er hins vegar ekki góður tími til veikinda. Mér til sælla minningar síðast þegar fjármál okkar gjörsamlega hrundu vegna aðstæðna. Ég ekki enn búin að sjá fyrir endan á þeim björgunaraðgerðum,  þegar næsta högg ríður.   Því er ekki að neita að þunginn er all verulegur. Reynsla mín af bönkum og öðrum lánasfyrirtækjum er erfið, þessar stofnanir gefa ekkert eftir og  taka lítt tillit til aðstæðna fólks þegar svona ber undir. Engin grið gefin né miskunn sýnd.  Vextir innheimtir að fullu auk vaxta- og vaxtavaxta og er hið opinbera ekki skást í þeim efnum.

Velferðarkerfið er svifaseint, Heilbrigðis- og tryggingakerfið er þungt í vöfum þannig að það tekur heila eilífð að fá afgreiðslu á þeim umsóknum sem sendar eru inn til að fá bætur o.þ.h. Þær bætur sem eru í boði þegar langvinnir og alvarlegir sjúkdómar banka upp á hjá fólki, dekka ekki framfærslukostnað, hvað þá að komast ekki nálægt launum hins almenna launþega. Þrátt fyrir afsláttarkort á heilbrigðisþjónustuna heldur einstaklingurinn áfram að greiða sína þjónustu en á lægra verði en áður. Sú upphæð er fljót að vinda upp á sig. Þó verður að segjast eins og er að mikið  munar um lyfjaskírteinin sem einstaklingurinn á rétt á. Í mínu tilviki skiptir sá kostnaður tugum þúsunda á mánuði, miðað við lyfjakostnað síðustu mánaða. 

Það er mjög freistandi að breiða upp fyrir haus og kasta þessum vandamálum frá sér.  Forðast að hugsa um þau, sofa bara út i það endalausa og láta ráðast hvernig það fer. Margur hefur ekkert stuðningsnet til að bakka sig upp og aðstoða.  Geta einfaldlega  ekki staðið í stórræðum, til viðbótar eigin veikindum.  Nú þegar fjármálakreppa er skollin , sjá stjórnvöld ástæðu til að koma til móts við einstaklinga með frystingu lána o.þ.h. sem er þarft og virðingavert framtak. Hið sama ætti að vera uppi á teningnum þegar fólki er kippt út úr sínu daglega lífi og atvinnu vegna lífshótandi veikinda.  Þörfin er ekki síðri undir slíkum kringumstæðum. Það þekkja sjúklingar, aðstandendur og foreldrar langveikra barna. Kannski leiðir kreppan af sér aukinni umræðu og skilning á þessum málum.   Ég hef ekki í hyggju að breiða upp yfir haus, hversu freistandi sem það er. Ég tekst á við þessi mál líkt og síðast en nú reynslunni ríkari og vonandi með betri þekkingu á frumskógarlögmálum kerfisins. En ég er ekkert yfir mig kát né full eldmóðs þegar kemur að því að ráðast á vandann og kerfið. Mér finnst nógu erfitt að kljást við bév... veikindin svo þessi vandamál bætis ekki við til úrlausnar. En það skal hafast.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þú ert sterk og raunsæ Guðrún mín.  Vonandi verður áhersla lögð á "mannúðlegt kerfi" hjá Nýja Íslandi, en ég er ekki farin að sjá að svo verði, ef sömu stjórnmálamennirnir fá að ráða áfram.  Veruleikafirring lagast ekki yfir nótt, frekar en aðrir "andlegir" sjúkdómar.

Gangi þér vel áfram og hafðu samband ef þú villt

Sigrún Jónsdóttir, 28.10.2008 kl. 07:33

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

  Vonandi sjáum við ljósið fljótlega







Hólmdís Hjartardóttir, 28.10.2008 kl. 10:59

3 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Knús knús og ljúfar kveðjur:)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 28.10.2008 kl. 15:54

4 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Mikið get ég skilið hversu erfitt það hlýtur að hafa verið að sjá á eftir dótturinni. Ég hef aðeins séð hana Andreu mína tvisvar frá því í að skólinn byrjaði í ágúst. Það tekur rosalega á að sjá á eftir henni. En mér finnst þú með einsdæmum dugleg að standa ein í þessum veikindum og erfiðu meðferðum.

Gangi allt vel hjá þér Guðrún mín.  

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 28.10.2008 kl. 17:03

5 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Altaf svo erfitt að kveðja börnin sín, sérstaklega ef þau eru að fara til annars lands. Sendi þér ljós og orku, vina mín

Kristín Gunnarsdóttir, 29.10.2008 kl. 15:12

6 Smámynd: Sigrún Óskars

ég segi eins og Hólmdís kollegi okkar - vonandi sjáum við ljósið fljótlega - það styttist líka í jólaljósin

það er alveg ótrúlegt að þurfa að hafa þekkingu á frumskóginum / kerfinu. Er kerfið fyrir okkur eða erum við fyrir kerfið? ég bara spyr

gangi þér áfram vel í meðferðinni  

Sigrún Óskars, 29.10.2008 kl. 19:23

7 Smámynd: Ásta Björk Solis

AE eg svo finn til med Islendingum nuna thettad er hormulegt.

Gangi ther vel vinan i medferdinni vonandi likur henni fljotlega,thu ert einstaklega sterk kona

Ásta Björk Solis, 29.10.2008 kl. 20:06

8 identicon

Hæ aftur Guðrún Jóna, rosa var gaman að hitta þig í dag

og æðislega gaman að geta sagt þér fréttir af sjúkkunum þínum sem gerðu þig svona stolta.

Gangi þér vel í meðferðinni, knús

Sigga (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 21:26

9 Smámynd: Katrín

það er sem betur fer stutt til jóla systir góð

Katrín, 29.10.2008 kl. 23:21

10 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Elsku Guðrún sendi þér ljós og kærleik.
Knús Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 30.10.2008 kl. 21:44

11 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir kveðjurna allar saman, ekki spillir að fá ljósin með. Þetta gengur alveg ágætlega og væsir ekki um mig, stundum kemur örítið spennufall með tilheyrandi.

Þú skilar kveðju á hópinnn Sigga mín. Það er rétt hjá þér, ég var og er ofboðslega stolt af hópunm mínum og finnst frábært að sjá hvað þið eruð að plumma ykkur vel, allar saman.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 31.10.2008 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband