Á rósrauðu skýi

Frúin hefur svifið á rósrauðu skýi síðan í morgun, snerti vart jörðina. Fékk óvænta símhringingu kl. 05 í morgun frá Kötunni sem bað mig um að opna dyrnar. Hélt mig vera að dreyma, hef svo oft kjaftað við sjálfa mig í svefni undanfarið en lét mig hafa það að fara niður og tékka á málum. Viti menn; á tröppunum stóð mín ástkæra dóttir og brosti sínu blíðasta! Komin heim í stutt frí fram á sunnudag.

Heimsferðir fljúga núna beint flug til Búdapest og nú voru einhver sæti á vildarkjörum í boði þannig að þau voru fjögur sem tóku sig saman og skruppu heim í kreppuna, rétt si sona. Framundan langt helgarfrí hjá þeim frá skólanum þannig að það var ekki hægt annað en að stökkva á tækifærið. Ekki leiddist mér sá glaðningur sem mín beið á útidyratröppunum, ætlaði seint að trúa því að daman væri komin. Mikið knúsað og mikið brosað allan hringinn. Því miður átti Haffinn ekki heimangengt en Katan bætir upp að stórum hluta auðvitað. Hann átti stóran þátt í ákvörðun hennar að skreppa heim og studdi hana með ráð og dáð eins og vera ber. 

Það þarf vart að taka  það fram að ég hef varla snert jörðina í dag, allt verið óskaplega gaman. Er ég þá ekki að tala um ,,steragleði" heldur miklu, miklu meira.  W00tFékk fylgd í geislana og selskap í búðina. Var búin að gleyma því hve gott er að hafa selskap.  Ákvörðun Kötu hafði stuttan aðdraganda þannig að frökenin er hálf vansvefta en ber sig vel, að vanda. Henni er nokkuð létt að sjá að ég er ekki eins og ég sé við grafarbakkan og allt er að ganga skv. áætlun hjá mér. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið mjög erfitt fyrir krakkana að vera úti á meðan ég fór í gegnum greiningarferlið og fyrstu meðerð en við sumt verður ekki ráðið. 

Það er svolítið sérstakt hvað við mannfólkið höfum mikla aðlögunarhæfni. Það var erfitt fyrst eftir að krakkarnir fóru að vera ein í íbúðinni og hafa engan til að hugsa um nema dýrin og sjálfa sig. Ég vandist því ótrúlega fljótt og kom ákveðinni rútínu á enda nóg búið að vera í gangi og margt sem hefur þurft að melta.  Auðvitað hef ég saknað krakkanna og oft þráð að þau væri heima á meðan við tökum þessa lotu en ég hef verið og er mjög sátt við það sem þau eru að gera og á meðan allt gengur skv. áætlun og ég ekki við grafarbakkan finnst mér óþarfi að snúa lífi þeirra á hvolf, fresta námi þeirra o.s.frv. til þess eins að halda í hendina á mér.  Samskipti og samvera snúast í mínum huga um gæði en ekki magn. Þannig geta stuttar samverustundir gefið mun meira af sér en langar, tímalengd hefur ekkert með gæðin að gera. 

Framundan er tóm sæla hjá frúnni, ætla að njóta hverrar mínútu með dótturinni. Ekki margt planað enda kannski ekki í stakk búin til að standa í stórræðum. Ætla mér fyrst og fremst að njóta félagskaparins, hlæja og hafa gaman af. 5 dagar eru fljótir að líða og því eins gott að nýta þá vel. Ekki það að ég setjist ofan á prinsessuna, hún verður auðvitað að fá að hitta vini og vandamenn.

En vá Katrín Björg! Þér tókst að koma mér rækilega á óvart, svo mikið er víst. Velkomin heim, mín kæra. Þetta verður ljúfur og ómetanlegur tími. Er hægt að biðja um meira?

katrin_bjorg_705649.jpg

 

Til að auka enn á gleði mína fékk ég óvæntar fréttir sem eru betri en ég hef látið mig dreyma um.   Mér barst auk þess aðstoð úr óvæntri átt  við frágang á erfiðu og viðkvæmu máli sem léttir mjög á stöðunni og áhyggjunum. Hef eiginlega verið orðlaus sem gerist afskaplega sjaldan. Er farin að reikna alltaf með því versta, í hverju sem er en segið svo að góðir hlutir geti ekki gerst, meira að segja í kreppunni! Mér finnst eins og ég geti rétt úr kútnum eftir mjög erfiðan tíma sem hefur tekið sinn toll af mér og mínum. Kannski svefninn lagist líka (má ekki vera of gráðug)Whistling Það fylgir því óneitanlega mikill léttir að geta horft upp og brosað framan í tilveruna. Kannski er komið að góðæri hjá frúnni, (tí, hí).  Það væri toppurinn á tilveruni.

Það verður sæl og ánægð móðir sem leggst til hvílu í kvöld. Ég hlakka til morgundagsins. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Yndislegt að lesa Bestu kveðjur

Sigrún Jónsdóttir, 21.10.2008 kl. 22:15

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég er kát að lesa að þú sért kát.    Njóttu tímans ykkar saman.... þú átt það skilið.

Anna Einarsdóttir, 21.10.2008 kl. 23:05

3 Smámynd: Ragnheiður

Yndislegt að lesa og gleðin smitast yfir á okkur hinar.

Ragnheiður , 21.10.2008 kl. 23:22

4 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Njóttu daganna sem framundan eru. Gaman að heyra þessar fréttir.

Aðalsteinn Baldursson, 21.10.2008 kl. 23:46

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þinn tími er að koma  Kveðja til ykkar mæðgna

Hólmdís Hjartardóttir, 22.10.2008 kl. 00:01

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég finn nú bara fyrir gleðinni sem í ykkur ríkir við lestur orða þinna.
Njótið vel það er svo gott að fá svona surprise.
Kærleik til þín Nafna mín Jóna.
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.10.2008 kl. 05:53

7 identicon

Dásamleg færsla! Eigiði rosa góða daga :) Ekki slæmt að fá svona íslenskt veður í fríinu sínu ;)

hm (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 08:03

8 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Tek undir með þeim hér fyrir ofan migfarðu vel með þig elskulegust og njóttu tímans með dóttur þinniKnús kveðjur til ykkarog ljúfar kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 22.10.2008 kl. 10:19

9 Smámynd: Katrín

Kata mín velkomin heim...og góða ferð aftur út:)  Njótið þess að vera saman mæðgur tvær.  Kveðjur til Haffa.

Katrín, 23.10.2008 kl. 01:01

10 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir hlýjar kveðjur, gott er að eiga góða að, kæru bloggvinir

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 24.10.2008 kl. 01:48

11 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Bara að segja góða helgi.
kærleik til þín
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.10.2008 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband