Lífið utandyra

Kíkti aðeins út fyrir dyr í dag og skoðaði mannlífið á höfuðborgarsvæðinu. Fór reyndar ekki langt, kíkti upp í Smáralind með Sigrúnu sys, rétt svona til að kíkja í búðarglugga, skoða aðra og sýna sjálfa sig.  Langaði að kíkja í kaffihús, fá mér stríðsteru eða eitthvað í kreppunni. Var eiginlega hálfhvumsa þegar ég leit í kringum mig, mannhafið gríðalegt, allar búðir fullar og þá ekki einungis bundið við búðagluggana heldur og einnig búðakassana. Fólk var sem sé að versla og verslaði grimmt sýndist mér. Haustdagar hér og þar með 30-50% afslætti, jafnvel meiri. Gulræturnar virkuðuð auðvitað á mig líka, ég fór að skoða og spekúlera.

Vantar ekkert sérstakt en þarna var hægt að sjá ýmislegt sem ég gæti hugsanlega nýtt mér, einhvern tíma við tilteknar aðstæður. Ekki síst af því að verðið var lækkað, náttúrlega.  Tókst á loft þegar ég sá barnafötin á heilu rekkunum frammi á gangi fyrir utan búðirnar, hugsaði til Kamillu litlu, hvað hún yðri nú fín í þessum lit og hinum litnum. Pínulitlar og fallegar flíkur, kostuðu jafnvel meira en fatnaður á fullorðna. Nóg var úrvalið.  En vá, hvað maður er raunveruleikafirrtur. Hér er bullandi efnahagskreppa og maður stendur í miðri Smáralindinni að skoða piparstauka og fatnað  sem maður gæti hugsanlega notað, einhvern tíman en ekki bráðnauðsynlega. Þegar ég rýndi í verðið, tók ég eftir því að það hafði hækkað á síðsustu 4-6 vikum, jafnvel sama flíkin hafði hækkað um 20-30%, sumar meira. Skyldi það vera út af nýjum sendingum eða...........????Whistling

Við systurnar sannfærðum hvor aðra að tiltekin stígvél æptu á okkur í gegnum búðarglugga, urðum að skoða þau betur. Þau æptu meira, Sigrún mátaði og auðvitað gátu þau ekki farið betur á fæti, verið meira töff. Þau bókstaflega æptu enn meira. Við litum hvor á aðra, í miðri kreppunni, með stígvélin í annarri hendi og létta budduna í hinni. Vorum fljótar að finna lausnina; sameinuðum 2 léttar buddur, fengum eina meðalþunga og keyptum fjandans stígvélin. Rosalega eru þau flott! W00t

Ég get ekki sagt að úthaldið hafi verið neitt til að hrópa húrra fyrir, varð fljótt þreytt á harkinu en mesta furða þó hve langt gulrótin getur dregið mann. Vorum ósköp penar í fjárútlátum eftir þetta en það spillti ekki fyrir áhuganum að kíkja á þetta og hitt, sem maður á nóg af. Mér var hugsað til fatarskáps míns sem er stútfullur af fötum sem eru orðin allt of stór á mig og þá meina ég stútfullur. Ég tók þá ákvörðun að teyma systur þangað þegar heim væir komið og stóð við það. Drifum okkur í kaffi og með því, meira að segja ég fékk mér gúmmelaði og naut í botn, svona framan af alla vega. .

Hvað varðar fataskáp minn þá hef ég horft á hann síðasta árið og verið að armæðast yfir því að geta ekki notað fötin mín. Þau eru orðin allt of stór. Megnið af ævi minni hef ég barist við aukakilóin, verið með spik hér og þar, mér til mikillar skapraunar. Nú horfir dæmið öðru vísi við, ég get ekki með nokkru móti haldið einu kílói á mér skammlaust og orðin fjandi tálguð, nákvæmlega eins og krabbameinssjúklingur sem og ég er auðvitað. Ekki lagast útlitið þegar ég klæði mig í of stór föt, verð eins og fuglahræða þannig að ég hef verið að bæta inn einni og einni flík við sem þó kemst ekki inn í skápinn. Varð því að rýma og ákvað að þessi dagur yrði kjörinn til þess. Setti Sigrúnu í stellingar og síðan hófst mátun, ekkert múður heldur klárt púl. Hana nú, og flest passaði. Við báðar ánægðar, hún komin með smá lager af nýlegum fatnaði og jafnvel með öðrum stíl en hennar eigin og ég komin með pláss í skápinn. Þarf ekki lengur að mæna inn í hann, full af samviskubiti. Þungu fargi af mé létt, ekki síst nú í kreppunni og get klætt stakk eftir vexti. Það eru töluverð verðmæti fólgin í fatnaði og ekki nýtast þau við að geyma þau í lokuðum fataskáp. Maður á að mota þau á meðan þau eru í tísku og passa manni.

Dagurinn var sem sé harla góður, byrjaði ekki fyrr en um kl. 14.00 hjá mér en betra er seint en aldrei stendur einhvers staðar. Get ekki sagt að ég hafi hlaupið um Smáralindina og var býsna verkjuð um tíma en áhuginn dró úr þeirri líðan. Mér er það ljóst að ég er á eins konar ,,steraflippi" þessa dagana, þeir hafa reyndar verið svolítið seinir í gang hjá mér en farnir að verka á fullu. Helstu fylgikvillar steranna er þó næturgöltið á mér, ég ,,þarf ekki að sofa" á næturnar, er bísperrt og hress, auk þess sem maginn lætur vita af sér. Er með brjóstsviða og önnur óþægindi sem ég átti svo sem von á. 

Útahaldið hefur verið með skásta móti, treysti mér þó ekki út í göngutúr með Lafði Díönu, fór í gær með hana og stóð bókstaflega á öndinni með köfnunartilfinningu þannig að ég þarf að byrja á núlli og hægt og bítadi auka þolið í þeim efnum. Sigrún tók að sér göngutúrinn. 

Mín kynslóð þekkir kreppu frá fyrri tíð. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið við einkenni hennar í Smáralindinni í dag, án þess þó að gera lítið úr því að ein slík er skollin á. Allar vörur hafa hækkað, ekki síst matvara og við eigum eftir að verða vör við afleiðingarnar í auknu mæli. Við getum hins vegar gert eitt og annað til að komast léttar frá þeim enda með reynslu og séð það svartara. Ég græt það ekkert ógurlega þó ég nái ekki að fylla fatarskápana mína, hef hvort eð er ekki undan því að nota það sem ég þegar. Þarf að breyta forgangsröðuninni, líkt og margur.Á sama tíma og ég gekk um Smárann í dag, varð mér hugsað til þeirra sem eiga ekki milli hnífs og skeiðar. Mér var hugsað til þeirra sem leitar til mæðrarstyrksnefnda, fjölskylduhjálpar o.fl. og ég blátt áfram skammast mín. Það eru ekki allir sem geta valið hvort og þá hvað er á borðum þessa dagana.

Ég ætla samt að leyfa mér að njóta þessa dags, er mjög ánægð með þær framfarir sem ég finn, jafnvel þó þær séu til komnar af sterunum.  Er býsna sátt og stefni að því að sofa í nótt.Heart

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Gott að sjá að þú ert á uppleið, alltaf hægt að ylja sér við sálarhitann í skammdegi og kreppu.

Bara ylur og birt í spilunum.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 18.10.2008 kl. 23:07

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Svona búðarráp er stórhættulegt fyrir ömmur  Ég sé sjaldan neitt spennandi á mig en alltaf eitthvað flott, sem hægt er að kaupa á barnabörnin.

Sýnist þú vera aðeins hressari og það er gott, farðu samt varlega

Sigrún Jónsdóttir, 18.10.2008 kl. 23:29

3 Smámynd: Ragnheiður

Þið systur eruð flottar, ætlið þið svo bara að spranga um í sitthvorum skónum ? Við systur höfum verið að spá í svona að kaupa sameiginlega en það voru dýrar bækur, ekki skór.

Kær kveðja Guðrún mín. Mér finnst þú dugleg að skella þér svona út

Ragnheiður , 18.10.2008 kl. 23:52

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

flott hjá ykkur systrum.  Verðhækkanir eru ekki vegna nýrra sendinga....því ekkert er flutt inn þessa dagana.

Hólmdís Hjartardóttir, 19.10.2008 kl. 00:04

5 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Gleður mig að lesa þennan pistil. Alltaf gott fyrir sálina að komast út og vona bara að stígvélin verði ykkur systrunum til lukku.

Gangi þér vel Guðrún mín.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 19.10.2008 kl. 02:31

6 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir þetta allar saman. Systir fékk stígvélin,ég er búin að átta mig á því að ég á nóg af fötum, skóm og stígvélum. Kemst varla yfir að fara í það sem ég á, enda lítið á ferðinni. Finnst einnig svolítið kaldhæðnislegt að fara að safna upp stórum lager af fatnaði o.þ.h. með mína greiningur.  Ætla beina peningunum inn á annan farveg og þá helst að greiða niður skuldir sem óhjákvæmlilega eru að og munu hrannast upp í þessum veikindapakka. Það er betra seint en aldrei að verða vitur, sagði einhver. Tek hann á orðinu

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 19.10.2008 kl. 08:45

7 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Gott hja ykkur systrum að dúlla ykkur saman, það er líka nauðsynlegt annað slagið. Þú ert bara dugleg.

Kærleiksknus

Kristín Gunnarsdóttir, 19.10.2008 kl. 09:25

8 identicon

Ég gat ekki annað en hlegið mig máttlausa af þessu bloggi, Gunnsa mín ! Það er sko spaugilegt að lesa um bæjarferðina okkar systranna ;-) Hún var mjög skemmtileg og ekki skemmir það að stígvélin eru geðveikt flott !! Ég mun sko nota þau við fyrsta tækifæri. Takk fyrir mig, litla systir. Við skreppum fljótlega aftur í búðir. Hver veit hvað við komum heim með þá, haha. En ég er sammála þér með hugleiðingarnar um kreppuna og marga þá sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Það er skammarlegt hvað stjórnvöld grípa seint inn í þær aðstæður. Þau eyða frekar fleiri hundruð milljónum í það að reyna að fá setu í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Svei attan !!! Ég vona svo sannarlega að forgangsröðunin verði önnur framvegis.

Sigrún sys (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband