Gleði og gaman í Debrecen

Krökkunum hefur gengið vonum framar, Kata fékk út úr sínu prófi í dag og niðurstaðan sú að nú hefur hún lokið 25% af námsefninu í lífeðlisfræðinni og þarf ekki að taka það aftur í lokaprófinu. Frábær árangur svona í fyrstu lotu, ekki síst í ljósi þess að hún er búin að vera með mikla heimþrá og ekki beinlínis legið yfir bókunum. Haffanum gekk vonum framar í ónæmisfræðinni í kvöld, er býsna sáttur en prófið þótti langt og erfitt. Hann er búinn að vera á blússandi ferð það sem af er annarinnar. Hann tekur þessu öllu með stóatískri ró og farinn að leggja sig á meðan tryppið er farið út á lífið með bekkjarfélögunum að fagna prófárangri eins og mér skilst að sé lenska á miðvikudagskvöldum. Helgarnar hins vegar notaðar til að bæta upp "glataðan" tíma.

Er ofboðslega sátt við frammistöðu krakkana og yndislegt að skynja það að þau eru á réttri hillu í lífinu. Þau eru það sem ég lifi fyrir en ég verð að passa mig að skipta mér ekki of mikið af, þau eru orðin fullorðin. Maður þykist svo ómissandi að það hálfa væri nóg. Ótrúlega rík tilhneiging í manni að vilja "miðla reynslu" sinni til þeirra. Þau verða að fá að reka sig á eins og ég og allir aðrir höfum þurft að gera. Það er hins vegar alveg gefið að þegar þeim gengur vel, líður ungamömmunni vel og vice versa.Heart

Held áfram leit minni af sjálfri mér, stefnunni og framtíðarsýninni. Ákvað að hætta að stressa mig á hlutunum og leyfa málum að gerjast og þróast. Vissulega er það vond tilfinning að vera stefnulaust rekald en á meðan sýnin er ekki skýr er réttast að láta sig reka áfram án þess þó að stefna að feigarðósi. Hef reyndar verið nokkuð nærri því í sumum málum en vona að ég hafi náð að taka U-beygju í tæka tíð.

Finn það vel að ég á langt eftir í land með að vinna mig úr málum en finnst ég sjá til lands í þeim efnum. Þá er bara að velja lendingarstaðinn. Kannski þetta séu hyllingar en leyfi mér þá að njóta þeirra. Finnst lítið spennandi að vera hér á höuðborgarsvæðinu í stressi og hávaða. Umferðin ein og sér er nóg til að æra óstöðugan svo ekki sé minnst á stöðugt áreiti frá bílum og mannfólki.  Finn mig í öllu falli alls ekki hér um slóðir og þrái ekkert heitara en að komast út úr skarkalanum. Það hefur komið sér vel að hafa meira en nóg fyrir stafni, minni tími hefur gefist til hugsana og það hefur verið fínt. 

Upplifi nú engan sérstakan létti yfir því að vera farin úr umhverfi "Sturlunga", upplifi frekar hitt að vera með "heimþrá". Það er nú einu sinni svo að á sumum stöðum skýtur maður rótum, meðvitað eða ómeðvitað og það tekur alltaf á þegar maður þarf að rífa þær upp, ekki síst gegn vilja sínum. Það hlýtur hins vegar að vera rólegt á vígstöðvunum núna, enginn til að hræra í "jafnvæginu". Einhverjum mönnum hlýtur að vera létt, a.m.k. um stundarsakirWhistling

Ekki það að það er ekki nýtt á nálinni að litlu þorpin á landsbyggðinni velja einstaklinga til búsetu en ekki öfugt. Sumir hljóta náð fyrir augum ráðamanna á meðan aðrir eru ofsóttir og hraktir á brott.  Svona er þetta einfaldega, hefur lengi verið og verður ugglaust þannig um ókomna framtíð, a.m.k. þar til byggðirnar leggjast í eyði sem siglir reyndar í hraðbyr í með óbreyttum áherslum stjórnvalda.

Hef ekki verið nógu sátt við heilsufarið en veit að þar er engin alvara á ferð, einungis viðbrögð við álagi. Hundfúlt engu að síður og hamlandi. Svaf lungan úr kvöldinu, tiltölulega ný skriðin framúr. Enn með verkina og brjóstsviðan  sem láta ekki undan neinum úrræðum. Það er ekki hlaupið að því að komast til læknis hér á höfuðborgarsvæðinu, læknavaktin er einungis skyndiplástur, eðlilega, þannig að það hefur lítið upp á sig að væla á þeim bænum. Önnin styttist í annan endan þannig að þetta ástand gengur yfir. Á næsta tékk í byrjun janúar og hef enga ástæðu til að ætla annað en að það komi vel út.  Það skiptir mestu máli. Kannski ég þurfi að læra jóga???? Aldrei að vita upp á hverju ég kann að taka.  W00t


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband