Týpískur mánudagur

Rétt marði þennan daginn, algjörlega búin á því eftir helgina. Ég sem gerði lítið sem ekkert. Svo virðist sem ég þurfi "langlegu" um helgar til að hlaða batteríin fyrir vinnuvikuna. Ég þarf að fara að hreyfa mig meira, þó fyrr hefði verið! Að sjálfsögðu beið minn hjartfólgni sófi eftir mér í lok dags, skreið úr honum fyrir rúmum klukkutíma.  Hann klikkar ekki frekar en fyrri daginn.

Það þarf lítið til að ýfa upp minningar og áföll þessa dagana, hvort heldur sem það er þáttur hjá Sirrý eða harmleikur helgarinnar.  Sem betur fer er umræðan farin að opnast um sjálfsvíg og áhrif þeirra. Fram til þessa hefur umræðan verið lokuð, flestir forðast hana og margir telja að slík mál eigi ekki að ræða.  Syrgjendur sitja uppi með áfallið.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem ekki hafa lent í því, skilji í raun hversu mikið áfall það er þegar ástvinur manns sér enga aðra leið færa en að taka sitt eigið líf.  Skotvopn bætir enn við áfallið, slík leið er svo endanleg og ákvörðunin óafturkæf.  Eins og fram hefur komið í þáttunum "Örlagadagurinn" er sjálfsásökunin svo sterk í fyrstu.  Hún ætlar beinlínis að éta mann upp að innan og gera út af við mann.  Síðan kemur reiðin og svo hvert stigið á fætur öðru þar til sátt næst, þ.e. sátt við orðinn hlut sem ekki er unnt að breyta.  Mér fannst Þorvaldur Halldórs lýsa ferlinu vel hjá Sirrý í gær.

Mér var létt þegar ég heyrði það í fréttum að öllum þeim er komu að harmleik helgarinnar, var boðin áfallahjálp sem nefnist "Fyrsta sálræna neyðarhjálpin" enda engin vanþörf á. Áfallahjálpinni þarf einnig að fylgja eftir næstu vikur og etv. mánuði.  Því miður virðist þau úrræði ekki vera til staðar í öllum landshlutum enda krefst hún þverfaglegrar samvinnu ýmissa heilbrigðisstétta og kirkjunnar.  Hins vegar mega heilbrigðisstarfsmenn og kirkjunnar þjónar í hinum ýmsu, minni byggðalögum taka sig á í þessum efnum.  Harmleikirnir gerast ekki síður þar en í stórborginni.    Vissulega eru til þau byggðalög þar sem þessi mál eru í góðum farvegi. Í öllu falli veit ég að okkur hefði ekki veitt af stuðningi, ekki síst Hafsteini og Katrínu, hvað þá þeim sem kom að.

En staðreyndin er sú að eftirlifendur úti á landsbyggðinni þurfa því oftar en ekki að bera harm sinn í hljóði og þeir sem koma að slíkum atburðum, ná sér etv. aldrei eftir slíka reynslu.  Hún fylgir manni ævina út.  Reynslan er jafnframt sú að eftirlifendur sækja sér sjaldnast aðstoð, það þarf að koma með hana til þeirra. Sem betur fer eru tímar að breytast og áherslurnar með.

Erfiðar hugsanir og pælingar sem sækja á hugan enda ekkert óeðlilegt við það, einungis liðlega 4 mánuðir síðan Guðjón fór.  Breytingar á lífi okkar miklar og fótunum kippt undan okkur að mörgu leyti.  Það tekur tíma að fara í gegnum sorgarferlið, feta réttu leiðina og finna jafnvægi á ný.  En allt hefst þetta með tíð og tíma.  Þangað til verða hæðir og lægðir, aðalatriðið er að festast ekki í hinum ýmsu þrepum og æra alla óstöðuga.  Sjálfsmeðaumkvun er engin lausn heldur, það stoðar lítt að velta því endalaust fyrir sér af hverju þetta gerðist  hjá mér.  Þetta gerðist og ég get ekkert gert til að breyta því. Ég þarf hins vegar að taka mig á og nota "hæðirnar" til að leysa úr öllum flækjunum, vera duglegri að ráðast í verkefnin.  Stundum eru litlu skrefin svo óendanlega stór og erfið en um leið og þau hafa verið tekin er sigurinn sætur og næstu skrefin auðveldari.

Auðvitað skilur enginn hvað maður er að fara með þessum orðum nema sá sem hefur gengið í gegnum sorgina með einum eða öðrum hætti. En allt hefst þetta, einungis spurning um tíma. Nóg um sorgina í bili. Nú fer hún upp í hillu.

 Heyskapur hafinn að Seljalandi og mín í skýjunum.Happy   Vona að menn geti nýtt heyfenginn.  Mín fjarri góðu gamni, bókstaflega með fiðring á tánum.  Veit ekkert skemmtilegra en sauðburð og heyskap.  Leitir í 3. sæti og sláturgerð í því 4. Það eru forréttindi að búa í sveit.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Heyskapur er dásamlegur. Ég hef grun um að í honum leynist ónýttur fjársjóður. Ég...sem alin er upp í sveit....væri til í að borga fyrir að fá að faðma aftur að mér þurhey og moka í blásara eða tína upp bagga. Ég er alveg viss um að útlendingar yrðu æstir í svoleiðis upplifelsi, ásamt öðrum góðum sveitaverkum. Ég sé líka að þú ert í mikilli sorg. Nú veit ég ekki hver Guðjón var og hvernig hann tengdist þér en hefur þú ekki fengið aðstoð í gegnum þetta?  Það býr mikil reiði innra með þér sem getur ekki annað en haft lamandi og niðurbrjótandi áhrif á allt þitt líf. ÉG vona að þú lærir að lifa með þessu áfalli í framtíðinni en það er auðveldara sagt en gert. Gaman að lesa um sveitaverkin en hvar á listanum er berjatýnsla?

Gíslína Erlendsdóttir, 31.7.2007 kl. 10:57

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Við erum sammála um heyskapinn og helst vil ég hann á gamla mátann. Er undrandi á því að ferðafrömuðir skuli ekki markaðsetja slíka viðburði. Mér finnst reyndar langskemmtilegast að hamast á vélunum

Berjatýnslan er reyndar nokkuð ofarlega, gleymdi henni hreinlega, það er svo langt síðan ég komst í ber.  Stefni að því þetta árið

Guðjón  var eiginmaður minn sem tók sitt eigið líf með skotvopni eftir langvarandi þunglyndi.  Til eru þeir sem telja víst að sökin sé alfarið mín og liggja ekki á því.  Aðstoð eftir þennan harmleik hefur verið af skornum skammti, í litlu mæli þó af hálfu kirkjunnar skömmu eftir atburðinn. Engin aðstoð af hálfu heilbrigðiskerfisins eða áfallateymis.  Stórfjölskyldan gerði sitt besta en að öðru leyti hefur þessi litla famelía verið sjálfri sér nóg og mun vera það áfram.  Ég hef fagnað opnari umræðu um mál sem þessi en um leið ýfa þær upp minningarnar.  Reiðin brýst stundum í gegn hjá mér en að öllu jöfnu fær hún ekki að stjórna lífi mínu. Auðvitað kemst ég í gegn um þetta og við öll hér en ég geri mér grein fyrir því að það tekur tíma og tekur á. Flækjurnar miklar og lítill skilningur hjá kerfinu.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 31.7.2007 kl. 21:05

3 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

ÉG samhryggist innilega. ÉG þekki aðeins til þessa sjúkdóms í gegnum fjölskyldu og vini og það er ótrúlegt að detta það í hug að hægt sé að kenna einhverjum um hvernig hlutirnir fara. Þunglyndi er eins og hver annar sjúkdómur, mér finnst ólíklegt að einhverjum dytti t.d. í hug að kenna manninum mínum um að ég hafi fengið krabbamein. Fræðsla um þennan sjúkdóm er mikil og auðvelt að afla sér hennar ef áhugi er fyrir hendi.  Stórfurðulegt að ekki sé hjálp að fá. Þetta blessaða heilbrigðiskerfi er götótt eins og sigti. En þú ert á réttri leið, gerir þér grein fyrir að til á ná sér þarf að horfa á jákvæðu hlutina og losa sig við reiðina, hún er lífshættuleg.

Gíslína Erlendsdóttir, 1.8.2007 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband