Biðin endalausa

Enn komin í sömu spor og í haust þegar ég beið og beið eftir niðurstöðum og meðferð. Þarf að fara í sneiðmyndatöku af brjóstholi og kviðarholi og fæ loksins að fara í beinaskann; það fyrsta síðan ég greindist. Fæ hins vegar ekki tíma fyrr en næsta fimmtudag og þá með þeim fyrirvara að tækin í Domus verði komin í lag. Það veltur hins vegar á því hvort réttir varahlutir berist var mér tjáð.Shocking Ég ætti skv. þessu plani að heyra í Sigurði Bö í síðasta lagi eftir aðra helgi.

Ekki það að ég er orðin vön biðinni, það er ekki vandamálið en mikið væri það skemmtileg tilbreyting ef hlutirnir gætu, svona einu sinni, gengið snuðrulaust fyrir sigWink.

Skoðunin kom vel út, engar eitlastækkanir og lungnahlustun eðlileg. Blóðprufurnar eins og ég átti von á, hækkuð í hvítu blóðkornunum enda búin að vera með "pest" og blóðrauðinn ansi hár enda ekki við öðru að búast með eitt lunga. Hvíldarpúls er alltaf yfir 100 slög/mín og er það eðlilegt af sömu ástæðu. Ég er að þyngjast og úthaldið að koma smátt og smátt.  Fékk meira að segja "starfshæfnisvottorð", að eigin ósk, sem ég þarf að skila inn þannig að ég er formlega orðin "vinnufær".

Ég líkt og aðrir sem veikjast af krabbameini, á erfitt með að plana langt fram í tíman og hef lært að horfa aðeins á næstu 3 mánuði eða þar til næsta tékk verður. Auðvitað ætla ég að sigra þennan fjanda en ekkert er sjálfgefið í þeim efnum. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir, ég hugsa um lífslok og afleiðingar þeirra á börnin mín. Hef reyndar meiri áhyggjur af þeim en sjálfri mér en ég veit að þau eru sterkir einstaklingar sem koma til með að spjara sig. Ég finn það vel að öðrum finnst óþægilegt að ræða um lífslok, ég var þannig sjálf þar til ég fékk reynslu í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur. Umræða um slík mál er óhjákvæmileg í því starfi og sem fagmaður hef ég þurft að móta mína afstöðu til dauðans eins og aðrir kollegar mínir. Að því leytinu hef ég kannski forskot á aðra í sömu stöðu en þekki það líka að það er oft nær óyfirstíganlegt að missa ástvini sína.

Ég finn það vel að ég hef breyst mikið við þessi veikindi og sviplegt fráfall Guðjóns. Afstaða mín til ýmissa mála hefur tekið U-beygju. Ég hef ekki verið þekkt fyrir að gefast upp og hef harðnað að því leytinu til ef eitthvað er. Þó að það komi mér alltaf á óvart hversu fólk getur verið óvægið, ýmist persónulega eða í krafti embættis síns, staldra særindin og sársaukinn skemur við í mínum huga. Ég má eiginlega gæta mín á því að vera ekki of hörð í viðbrögðum mínum þegar að mér er vegið eða illa komið fram við mig og mína. Ég hef líka lært á óvæginn hátt að ekki eru allir viðmælendur vinir mínir og til eru þeir sem sigla undir fölsku flaggi, tilbúnir að sparka í útafliggjandi mann þegar því er að skipta.  Ég er reyndar alltaf jafn bláeyg þegar kemur að slíkum málum, á erfitt með að trúa hvað fólk getur verið grimmt og óvægið. Sumir eru það blindaðir af heift og mannvonsku að þeim er það ekki tiltökumál að sæta lagi og bregða fæti fyrir mann, jafnvel þegar maður er ekki fær um að verjast sökum veikinda og sorgar. Hvernig skyldi slíkum einstaklingum reiða af ef þeir veikjast sjálfir, missa ástvin, verða sviptir atvinnu og afkomu eða ef vinir þeirra bregðast þeim? Oftar en ekki verður mér hugsað til þess að samviskan eigi eftir að banka hressilega upp á hjá þeim, verði þeir óvígir af einhverjum orsökum. Ég hef í raun samúð með þeimCrying

Finn að ég er ekki eins þreytt eftir vikuna nú og ég var í síðustu viku, hvað þá þeirri þar síðustu. Var þó ekki það brött að ég treysti mér að keyra vestur í dag en stefni þangað á morgun. Katan fór í dag og lítur eftir hlutum, mér heyrist ekki vanþörf á því. Verst að það er ekki hægt að panta öryggisþjónustu í sveitina, ekki veitti af, því miður.

Búin að afreka það að slá og reita arfa í kvöld, sæl og ánægð með árangurinn en ansi mikið eftir. Allt hefst með litlu skrefunum og smásigrunum. Ég get vel við unað að vera orðin þetta brött, það er meira en hægt er að segja um margan sem er að berjast við krabbamein af ýmsum toga. Ég er sátt við sjálfan mig, auðvitað hefði ég getað betur á mörgum sviðum. Ég er, eins og allir, mannleg og breysk. Vildi að ég hefði verið sterkari eftir andlát Guðjóns og drifið í ýmsum málum en viðurkenni vanmátt minn, sumt gat ég einfaldlega ekki horfst í augu við eða tekið á.  Afleiðingunum verð ég að taka og ekki er að vænta skilnings í þeim efnum á sumum vettvöngum. Þannig er það bara, ég hef reynt mitt besta, meira er ekki hægt hverju sinni. Á morgun geri ég beturBlush


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Gunna mín.  Allt gott að frétta frá Vík í Mýrdal.  Sólarlaust í dag en hæglætisveður.  Farið í góðan bíltúr um svæðið og ýmislegt skoðað. Góð afslöppun fyrir okkur mæðginin.  Heimferð á morgun með brotna afturrúðu en steinn flaug í hana seint í gærkvöldi við innkeyrsluna.  Siggi húsráðandi er búin að teipa plast í stað glers til bráðabrigða af sinni alkunnu snilld.  Góða ferð vestur í Dalina og njóttu ferðarinnar.  Sjáumst hressar eftir helgi og vertu áfram sterk, dúllan mín.  Við þurfum að kaupa okkur brúnar augnlinsur og hætta að vera bláeygðar !!!

Knús og kossar 

Sigrún (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband